Mynd/guidetoiceland.is
Mynd/Guidetoiceland.is

Bókmenntir og ljóð var eitt af mínum uppáhalds fögum í skóla og ég man hversu mikið mér gramdist hve lítið og hreinlega ekkert við lærðum um ljóðlist kvenna.

hulddda
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind

Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind) var mitt allra uppáhalds ljóð og lag sem krakki. Enn þann dag í dag fæ ég gæsahúð við að lesa þennan texta um hreina, litla þjóð sem engum vill illt.

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð. 

Ég leit mikið upp til Huldu. Konur gátu samið ljóð og gert það vel! Hingað til hafði bara verið talað um karlkyns rithöfunda og skáld en hér var komið eitthvað alvöru “stöff”. Kona! Ég vildi heyra frá konum.

thura
Þura í Garði

Af hverju lærði ég ekki um Þuru í Garði?

Ég uppgvötaði Þuru í Garði (1891-1963) í gegnum Margréti vinkonu mína sem uppgvötaði Þuru á ættarmóti. Þura var skáldkona sem ég hefði þurft á að halda innan um alla rómantíkina í þjóðernis -og náttúrljóðum sem við stúderuðum í skóla.

Hún var beinskeitt, hispurslaus og umfram allt skemmtileg.

Í pistli Margrétar um Þuru kemur eftirfarandi fram:

“Þura hafði gaman af því að gantast um ástarmál og virtist ekki hafa neinn sérstakan áhuga á að gifta sig. Frekar kaus hún að daðra við marga og njóta frelsisins sem fáar konur tóku sér á árum áður.”

Svona er að vera úr stáli og steini,
stríðin, köld og ljót;
aldrei hef ég yljað sveini
inn að hjartarót.

Mig hefur aldrei um það dreymt,
sem eykst við sambúð nána.
Þú hefur alveg, guð minn, gleymt
að gefa mér ástarþrána.

lilja (2)
Lilja Ingudóttir

Lilja

Lilja er skúffuskáld sem mig grunar að eigi eftir að deila efni sínu þegar fram líða stundir en hún er eitt af mínum uppáhalds skáldum í dag.

Ég finn að ég vil komast út
í átt til sólar og finna þar hlýju
ég vil losna við þennan hnút
og finna gleðina að nýju.

Og gleðin mun vísa mér veginn
og hleypa í sál mína kjark
og þá mun ég verða svo fegin
eftir allt þetta vonlausa hark.

____

Hljóðlega geng ég af stað
óstyrk, en ákveðin þó.
Áfram ég held sama hvað
því í sálinni vil finna ró.

Ég vil geta dásamað heiminn
og sjá hversu gott lífið er.
Hætta að vera svo feimin
og finna styrkinn í mér.

Lestu einnig: Þura úr Garði: Ég get lifað alveg á, ástum giftra manna