alki

Okkur barst þetta einlæga bréf í tölvupósti. Takk Kristín fyrir að deila þessum vangaveltum með okkur. 

Er munur á konum og körlum þegar kemur að alkóhólisma?  Ég hef stundum velt þessu fyrir mér þar sem ég á mann sem er alkóhólisti. Væri staðan öðruvísi ef það væri ÉG en ekki hann sem væri alkóhólisti?

Þegar karlmenn drekka of mikið, eru aldrei heima hjá sér og sinna konum sínum og börnum ekki neitt, þá virðist enginn kippa sér sérstaklega upp við það í nánasta umhverfi fjölskyldunnar. Karlmaðurinn kemur og fer eftir eigin hentisemi og fjölskyldan bíður á meðan.

Oft hugsa ég til baka… Hefði ég vitað að hann væri alkóhólisti hefði ég ekki stofnað fjölskyldu með þessum manni. Ég vissi bara ekki nóg um þetta.

Ef ég hefði vitað að ég myndi alltaf enda í fimmta sæti hjá honum þá hefði ég ekki haldið út í lífið með þessum manni. Ef ég hefði vitað að ég myndi næstum ósjálfrátt breiða yfir allt sem hann gerir eða gerir ekki til að “hjálpa” honum hefði ég ekki valið þessa leið.

Ef það væri konan sem væri alkóhólisti og hegðaði sér með þessum hætti… myndi nánasta umhverfi og fjölskylda þegja og láta þetta ganga yfir? Einhvernveginn efast ég um það!

Nú þekki ég bara það að vera eiginkona alkóhólista. Hann stjórnar heimilinu og fjölskyldunni með skapi sínu og hátterni. Ef hann er í góðu skapi þá fylgjum við með (til að hafa hann góðann). Ef hann er stressaður og  skapvondur reynum við að læðast með veggjum til að styggja hann ekki frekar.

DREKKUR ÞAR TIL HANN “DEYR”

Ég er sterk týpa. Ég ólst upp í venjulegri fjölskyldu, á foreldra sem drukku varla og á góð systkini. Við ferðuðumst mikið saman og vorum mjög samheldin og góð eining. Alkóhólismi var eitthvað sem ég hreinlega þekkti ekki.

Auðvitað fæ ég mér í glas stundum og finnst fátt skemmtilegra en að lyfta mér upp í góðra vina hópi en þegar ég var búin að vera í nokkrar vikur með manninum mínum sá ég fljótt að hann átti við vandamál að stríða. Hann gat ekki hætt að drekka og getur ekki í dag. Hann drekkur daglega þar til allt áfengi er búið eða hann er dauður áfengisdauða.

Oft hugsa ég til baka… Hefði ég vitað að hann væri alkóhólisti hefði ég ekki stofnað fjölskyldu með þessum manni. Ég vissi bara ekki nóg um þetta. Ef ég hefði vitað að ég myndi alltaf enda í fimmta sæti hjá honum þá hefði ég ekki haldið út í lífið með þessum manni. Ef ég hefði vitað að ég myndi næstum ósjálfrátt breiða yfir allt sem hann gerir eða gerir ekki til að “hjálpa” honum hefði ég ekki valið þessa leið.

ENDALAUSAR AFSAKANIR

Afsakanirnar fyrir drykkjunni eru ótalmargar og gæti ég skrifað heila bók um afsakanir fyrir því af hverju hann “þarf” að fá sér í glas: Það er fótbolti í kvöld, það er júróvísíon, það eru nú jólin og þau eru bara einu sinni á ári, það voru svo mikil læti í vinnunni í dag og ég verð að ná mér niður, ég er svo þreyttur en get ekki sofið og verð að fá mér smá í glas, æji fyrrverandi hringdi og var með vesen og ég verð að fá mér einn bjór. Vá hvað það er gott veður..alveg tilvalið í góðan bjór eða ohh það er svo ömurlegt veður úti að ég hreinlega verð að fá mér einn!

Afsakanirnar eru óteljandi en sú fáránlegasta er þegar hann segist verða að fá sér einn af því ég var með leiðindi við hann þennan sama dag! Þú varst að tuða svo mikið við mig í dag að ég á skilið að fá mér einn!

Allt eru þetta fáránlegar afsakanir í mínum huga. Til hvers þarf hann að nota ömurlegar afsakanir fyrir því að sitja einn í stofunni og drekka? Hvað er gaman við það?

Maðurinn hefur ekki stjórn þó allt líti ágætlega út á yfirborðinu

Ég er orðin svo pirruð. Pirruð á manninum sem lofaði mér að halda út í lífið með mér og börnunum okkar. Pirruð yfir því að hann er aldrei tilstaðar þegar ég þarf á honum að halda. Hann er frekar einn heima að drekka.

 

Sjálfselskan er yfirgnæfandi og fólk sem er bundið áfenginu á við risastóran vanda að stríða því það sér EKKERT nema flöskuna og næsta tækifæri til að drekka.Það sér ekki hvernig það hegðar sér. Virðist raunverulega alveg blint.

HVAÐ EF ÞAÐ VÆRI KONAN?

Fjölskyldan líður fyrir drykkjuna – hvað ef það væri mamman?

Fyrir fjölskyldumeðlimi alkans er þetta mjög erfitt. Alkinn getur til dæmis ekki lofað að vera til taks ef eitthvað kemur upp á. Hann getur ekki séð um börnin sín. Hann getur ekki farið út á meðal fólks því hann gerir sig yfirleitt að stórkostlegu fífli í hvert sinn. Niðurlægingin er allsráðandi.

En er þetta öðruvísi ef alkinn er konan í sambandinu? Þegar karlmaðurinn í sambandinu er alki, vita stundum ansi fáir það. Kannski vita það allir en það segir enginn neitt. Myndi fólk ekki heldur segja neitt ef það væri konan sem væri alkinn? Er ástandið alvarlegra þegar það er móðirin sem sér ekki um börnin sín og heimilið? Kemur það ekki verr út? Hvað heldur þú?

TVÆR MEÐFERÐIR AÐ BAKI

Sjálf hef ég farið í fjölskylduhjálp SÁÁ til að fá hjálp og stuðning. Það er algjörlega ómetanlegur stuðningur sem fæst hjá SÁÁ. Þar er fólk sem þekkir vandann og þessa sjúklegu fíkn. Getur hjálpað okkur sem erum meðvirk, okkur sem elskum alkann en vitum hvorki hvað við eigum að gera við hann eða með honum og eigum erfitt með að fara frá honum.  Minn alki hefur farið tvisvar í meðferð en hann er samt sannfærður um það að ekkert sé að. Nákvæmlega ekkert vandamál í gangi, hann mætir í vinnu alla daga…og er það ekki nóg?! Hann veit varla hvað við heitum sem búum með honum, samt erum við þau sem standa honum næst.

Alkóhólismi er sjúklegur vandi, sjúkdómur segja margir og það er eflaust rétt. Við sem erum aðstandendur spyrjum okkur hvar viljastyrkurinn sé? Hvar er ábyrgðin á eigin lífi og barnanna? Hver er stefnan í lífinu, er alkanum alveg sama eða hefur hann hreinlega gefist upp? Það eru ótalmargar spurningar og ég vona alltaf það besta. Vona að minn alki sjái hversu mikið hann á í fjölskyldunni og sambandinu okkar og sýni því áhuga með því vilja til að takast á við lífið með okkur.

BREITT YFIR VANDAMÁLIÐ

Börnin verða oft ósjálfrátt vanrækt af báðum foreldrum ef annað er alki

Fólkið í kringum okkur breiðir yfir vandann því kannski fel ég vandamálið svona vel. Fel það þegar hann drepst kvöld eftir kvöld á sófanum. Fel það þegar hann skríður heim til sín daginn eftir vinnustaðarpartý um það leiti sem börnin eru að vakna. Fel tómu flöskurnar og bjórdósirnar svo gestir sjái ekki ósköpin ef einhver kemur óvænt í heimsókn. Forða mér þegar hann er skapstór á morgnana eftir langvarandi drykkju og passa að koma honum ekki í uppnám. Segi lítið sem ekkert ef hann hverfur í nokkra daga og kemur heim auralaus eftir ævintýri sín dagana á undan.

Kannski skiptir það engu máli hvor aðilinn í sambandinu það er sem er alki. Kannski felum við sem stöndum næst alkanum þetta svo vel að samfélagið og nánasta fjölskyldan gerir sér enga grein fyrir hvað ástandið er alvarlegt. Vandamálið er alveg jafn stórt hvor aðilinn sem það er í sambandinu sem á við áfengisvanda að stríða.  Stundum finnst mér bara að maðurinn minn “sleppi” ansi vel við ábyrgð heimilisins og fjölskyldunnar. Myndi konan ekki fá neikvæðara umtal?

Hún er bara alltaf drukkin” eða “Spáðu í þessu, konan hugsar ekki um annað en næsta sopa”  eða jafnvel “Aumingja börnin hennar“!!

En öll skulum við hafa von. Von um að alkarnir okkar fái bata frá þessu ömurlega ástandi. Von um betra líf með þeim sem við elskum. Von fyrir þau sem eru föst í klóm áfengisfíknarinnar. Von um betra líf án áfengis!

Hér er heimasíða SÁÁ fyrir þá sem vantar hjálp. Það er engin skömm í því að leita sér hjálpar og þyggja hjálp frá fólki sem þekkir sjúkdóminn vel. Hér er líka heimasíða Al Anon samtakanna sem eru samtök aðstandenda alkóhólista.

Því eitt er alveg á hreinu, við aðstandendurnir þurfum á hjálp að halda til að hætta allri meðvirkni og hjálpsemi í garð þess veika – Fyrir okkur sjálf!

Kveðja, 

Kristín Sigurðardóttir