emelie_scheppBókin Merkt er eftir sænska höfundinn Emelie Schepp. Þetta er fyrsta bók höfundar í seríu, þegar er komin út næsta bók (ekki búið að þýða hana) og þriðja bókin kemur út í maí. Fyrstu tvær bækurnar fóru á metsölulista og sölulega séð er hún komin í flokk með elsku karlinum honum Wallander.

Glæpasögur heilla mig. Þær draga mig að sér og ég verð óviðræðuhæf þar til ég er búin að klára bókina. Það er að segja ef bókin er góð og þessi var það.

merkt1Yfirmaður útlendingastofnunarinnar í Norrköping finnst myrtur á heimili sínu og saksóknarinn Jana Berzelius er fengin til að stjórna rannsókninni.  Eiginkona hins myrta kemur að honum og í gluggakarmi finnst handarfar eftir barn en þau hjónin eru barnlaus. Hjólin fara af stað og fljótlega dregst Jana inn í atburðarrás sem hún skilur ekki. Fortíð hennar sjálfrar virðist tengjast málinu og hún berst við drauga fortíðarinnar.

Jana er mjög dularfull persóna, lokuð og næstum því leiðinleg því hún er svo ferköntuð. Það verður spennandi að sjá  hvernig höfundi tekst að vinna úr henni í næstu bókum og foreldrar hennar, dreptu mig ekki. Þetta er fólk sem ekki ætti að eiga börn.

Lögreglukonan Mia er líka stórundarleg. Hún er greinilega klár en hún er alveg grensulaus í peningamálum og þarf að berjast við sjálfa sig ef hún sér peninga gægjast út úr veski einhvers staðar.

Hinrik, samstarfsmaður hennar, er hinsvegar dauðþreyttur og vantar tíma fyrir sjálfan sig. Allur hans tími fer í að vinna og sinna konu og börnum. Þetta eru nútímavandamál nema auðvitað vandamál Jönu en þau gera þetta bara meira spennandi.

Bókin er dálítið svört á tímabili og ég veit að mörgum finnst erfitt að lesa bækur þar sem illa er farið með börn en mér fannst þetta mjög spennandi efni.

Flóttafólk er mikið í umræðunni í dag um allan heim og því ekki undarlegt að höfundar séu farnir að skrifa um raunir þeirra.

Ég hlakka til að lesa meira og vona að það líði ekki allt of langur tími þar til næsta bók verður þýdd (ég nefnilega nenni alveg ómögulega að lesa á sænsku). Fjórar stjörnur og hefðu getað verð fleiri. Ég var ekki alveg sátt með ákveðið flækjustig en get ekki farið nánar út í það hér þar sem þá þyrfti að gefa of mikið upp af söguþræðinum og það má alls ekki.

Niðurstaða: Mjög spennandi glæpasaga sem heldur manni við efnið. Fjórar  (4 / 5)