codtomatoesÞessi réttur er mjög góður þó svo ég hafi sleppt fiskisósunni og ekkert flókin þó svo upptalning á hráefni sé nokkuð löng.

Réttinn fann ég á vefnum hjá henni Sigrúnu en þar eru margar frábærar og mjög hollar uppskriftir.

FISKUR MEÐ KÓKOSFLÖGUM OG BASIL

Fyrir 3-4

175 g kirsuberjatómatar skornir í helminga
1 hvítlauksrif, saxað smátt
450 g ýsa (bein- og roðlaus)
25 g kartöflumjöl eða spelti
0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
Smá klípa svartur pipar
1 tsk kókosolía
2 msk rautt, thailenskt karrímauk
1 msk fiskisósa (Nam Plah)
250 ml léttmjólk eða undanrenna
2 msk kókosflögur
20 fersk basil blöð, skorin í ræmur eða rifin

AÐFERÐ

Afhýðið hvítlaukinn og saxið smátt. Skerið kirsuberjatómatana í helminga.
Skerið fiskinn í meðalstóra bita (ég miða við 4 bita á hvert flak eða svo).
Setjið kartöflumjölið í skál og kryddið með salti og pipar. Veltið bitunum í mjölinu og þekið vel.
Hitið kókosolíu á stórri pönnu. Setjið fiskinn á pönnuna og hitið í 3-4 mínútur. Ef vantar meiri vökva á pönnuna notið þá vatn.
Blandið saman hvítlauk, karrímauki, fiskisósu og mjólk.

Hellið blöndunni yfir fiskinn og hitið að suðu. Bætið tómötunum við og látið krauma í 5 mínútur (gætið þess að ofhita ekki því þá fara steinarnir að leka út úr tómötunum).

Dreifið basil blöðunum yfir og kókosflögunum yfir og hrærið varlega svo að fiskurinn fari ekki í sundur.

Hvet ykkur til að vera dugleg að prófa nýjar uppskriftir, tilraunastarfsemi í eldhúsinu á hollan hátt er mjög spennandi!