tumblr_lckhbiMBbD1qbny87o1_500

Eitt af því sem allar pjattaðar konur eiga að gera reglulega er að taka sjálfar sig í gegn og eiga svona Me-Time heimavið.

Skemmtilegast er að gera þetta þegar þú ert ein heima eða með góðri vinkonu og auðvitað er heimadekur algjört möst áður en þú ferð í flott partý eða annað samkvæmi. Því væri tilvalið að nota kvöldið í kvöld til að fara vel með sjálfa þig og eiga gæðastund sem gerir þig sætari og lætur þér líða betur.

Hvernig er svo uppskrift að góðu heimadekri og hvað þarf ég?

  1. Djúpnæringu fyrir hárið.
  2. Maskar: Rakamaski, stinnandi maski og/eða djúphreinsandi.
  3. Kornakrem fyrir andlit og líkama og hanska til að bursta.
  4. Body lotion.
  5. Brúnkukrem.
  6. Matarsóda eða annað til að gera tennur hvítar.
  7. Háreyðingarkrem eða rakvél.
  8. Naglalakk, þjöl og herði.

…Og hér er aðferðin

HÁRIÐ

Byrjaðu á djúpnæringunni. Greiddu hana í gegnum hárið eftir að hafa bleytt það og þurrkað aðeins með handklæði. Settu svo poka yfir hárið og handklæði yfir hann. Við getum mælt með Redken ‘Real Control’ en frá þeim er hægt að fá frábærar djúpnæringar fyrir nokkrar hárgerðir: T.d. litað, slitið eða illa farið hár. Kerastase er einnig með frábærar hárvörur.

KORNAMASKI 

Þá er það kornamaski fyrir andlitið. Bleyttu andlitið með volgu vatni og nuddaðu svo með kornakreminu í litla hringi. Gerðu þetta í svona eina mínútu en ekki lengur. Skola. Kornakrem er hægt að fá frá flestum merkjum, ég hef verið hrifin af Kiehls vörum sem hægt er að fá í Bandaríkjunum en svo eru Chanel, Murad og Clinique líka með æðislega kornamaska.

STINNANDI MASKI 

Næst kemur hreinsandi eða stinnandi maski (eftir því hvað þú ert gömul eða hvernig ástand húðarinnar er). Þú berð hann á, lætur liggja í 10 mínútur eða korter og skolar af. Ég hef verið mjög hrifin af maska frá Helenu Rubinstein en hann er í Prodigy línunni og heitir Prodigy Re-Plasty High Definition Peel Perfect Skin Renewer. Frábær og ótrúlega virkur maski. Svo eru til margir fleiri góðir, t.d. frá Clinique, NuSkin og fleirum.

TENNURNAR

Þá er það tannhvítuefnið. Þú getur keypt það af tannlækninum þínum, í Kosti eða í næsta apóteki. Algengt er að kaupa svona ‘góm’ og í hann er efnið sett. Ef þú vilt fara ódýru leiðina er hægt að bursta tennurnar upp úr matarsóda. Settu þá bara smá matarsóda á burstann og burstaðu tennurnar. Skola vel á eftir. Þú finnur og sérð muninn strax. Má samt bara gera x2-3 á ári. Smelltu HÉR til að vita meira um það.

RAKAMASKI 

Þessu næst er það rakamaskinn. Hann getur þú þessvegna sofið með en ef við ætlum ekki að gera það þá er hann bara látinn bíða (með tannhvítugómnum ef þú notar hann) meðan þú horfir á eins og einn Dexter þátt eða einhverja góða mynd á DVD. (Ég hef prófað rakamaska frá t.d. Lancome, Biotherm, Sensai og Chanel og þeir eru allir frábærir).

Semsagt, djúpnæring í hári, tannhvítuefni og rakamaski bíða á í sirka klukkutíma.

LÍKAMINN/SJÁLFBRÚNKA

Farðu í gott bað eða sturtu og notaðu kornakrem á allann líkamann með grófum hönskum. Ekki gleyma táslunum og iljunum sem elska svona kornakrem. Athugaðu að nota kornakremið ÁÐUR en þú rakar leggina eða notar háreyðingarkrem.

(Skolaðu djúpnæringuna úr hárinu en settu venjulega næringu í á eftir til að fá hárið alveg perfekt og skolaðu svo úr með köldu vatni.)

Þá er það brúnkukremið sem þú berð á með plasthönskum eða með þar til gerðum svamphanska sem er sérstaklega ætlaður fyrir brúnkukrem. Ef þú ert með mjög þurra húð er gott að setja body lotion á fyrst og láta það aðeins ganga inn í húðina. Berðu svo brúnkukrem á andlitið og passaðu augabrúnirnar og hársvörðinn.

Gott er að nota meiksvamp til að bera brúnkukrem á andlitið. Þá færðu kremið ekki á fingurna og áferðin verður jöfn og flott. Ef þú kýst að nota ekki hanska eða svamp skaltu muna að þrífa hendurnar ekki síðar en á 5 mín fresti og halda svo áfram að bera á húðina. Ég (og Pixiewoo) ofl ofl mæli með Xen-Tan sjálfbrúnku sem vaaar að koma í búðir á Íslandi. Algjör snilld.

HÉR eru fleiri ráð um hvernig þú fullkomnar hörundið á líkamanum í takt við Beoncey og Gwyenth Paltrow. 

FINAL TOUCH

Að lokum er gaman að pússa neglurnar, bera á naglböndin og setja flott naglalakk á fingur og táslur. Lestu hér 10 ráð um hvernig er hægt að fá fallegar neglur.

Þetta æðislega trít tekur sirka einn og hálfan til tvo tíma og þér líður dásamlega á eftir – hvort sem þú ferð beint upp í rúm eða út á lífið.

ps. Mundu bara að fara í náttföt og setja auka koddaver á koddann ef þú ætlar með brúnkukremið á þér í bólið. Það tekur ca 5-8 kls að ná fullri virkni og eitthvað gæti smitast í rúmfötin.