Finnst þér þessi fyrirsögn hljóma undarlega? Kannski, því í dag myndi hún líklega hljóma eitthvað svipað þessu:

“Ég er búin að bæta svo á mig, þyrfti að breyta um lífsstíl, fara í ræktina”.

Upplifun okkar á líkamanum, heilsu og holdafari hefur breyst geysilega mikið á liðnum árum og viðmið okkar eru á margan hátt orðin ansi sérstök. Að sama skapi hefur orðanotkunin að breyst verulega þegar kemur að líkamlegri heilsu og það sama má segja um viðmiðin.

Þau geta verið ansi mikið í ökkla eða eyra. Kona er ekki orðin “feit” fyrr en hún kjagar um í holdinu og sumum finnst þær ekki “grannar” fyrr en beinin standa upp úr bringunni. Hinn gullni meðalvegur virðist stundum fokinn út í veður og vind og nú erum við annaðhvort “feitar” eða “í formi” og leiðirnar að hvoru tveggja eru jafn öfgafullar.

Við förum frá því að drekka kókakóla daglega og borða pizzur og borgara að lágmarki vikulega  yfir í að neita okkur um öll kolvetni og nærast á próteindufti, túnfisk og eggjahvítum í öll mál.

Adele er búttuð og falleg

HVAÐ GERÐIST EIGINLEGA?

Aftur að orðanotkuninni. Þegar ég var að alast upp var oft talað um að stelpur væru “þybbnar” eða “búttaðar”. Í dag heyrir maður þessa lýsingu sjaldan. Í dag eru búttaðar og þybbnar konur fyrir sumum bara “venjulegar” og fyrir öðrum eru þær “feitar”. Þybbna konan er ekki lengur til. Hún gufaði upp um leið og sú búttaða. *Plopp!*

Að sama skapi eru of margar stelpur allt of ósáttar við sig þó þær séu bara örlítið þybbnar og leyfa sér því ekki að blómstra og njóta sín sem pjattrófur.

Neyslan og fjölmiðlarnir hafa líklegast afvegaleitt okkur einhvernveginn. Einhvernveginn hefur stór hluti fólks talið sér trú um að það sé ekki í formi fyrr en það er orðið glerhart á alla kanta, olíusmurt og “tanað” með 12% fituhlutfall og svo er það ekki feitt fyrr en það er komið með súrefnisvél inn í svefnherbergi til að stöðva kæfisvefn og á biðlista fyrir hjáveituaðgerð.

Að sama skapi eru sumar stelpur allt of ósáttar við sig þó þær séu bara örlítið þybbnar og leyfa sér því ekki að blómstra og njóta sín sem pjattrófur. Fela sig, klæðast of víðum fötum og missa um leið heilbrigða líkamsvitund og stolt yfir því að vera af okkar frábæra, fallega kyni.

BACK TO BASICS

Væri ekki hollara fyrir okkur að fara aðeins aftur í tímann þegar kemur að viðhorfum til líkamans og holdafarsins? Kannski bara eitthvað svipað og tíðkaðist hér á landi þegar ég var að vaxa úr grasi –  en það var löngu áður en Ísland varð “stórasta land í heimi”. Við ættum líka að taka upp sitthvað úr gömlum matarvenjum því í þá daga var kókið spari og engum datt í hug að blanda sælgæti í risastóra poka eða sporðrenna 16 tommum af franskbrauði með tómatsósu og osti (pizza) með tilheyrandi afleiðingum á líkamann – að minnsta kosti einu sinni í viku.

Smelltu til að stækka hana upp

Ef amma og vinkonur hennar urðu “feitar” þá minnkuðu þær skammtastæðir, rjóma og sætmeti og fóru í lengri gönguferðir ásamt því að gera nokkrar æfingar heima. Við þurfum að hlusta á eigin líkama og reyna að sjálfmennta okkur þegar kemur að mataræði því það er alltaf einhver sem vill selja þér töfralausnir.

Staðreyndin er sú að við erum öll misjöfn og þolum innihald fæðunnar misjafnlega. Við erum jafnframt ólík í laginu, með misjafna beinabyggingu og efnaskipti en öllum er hinsvegar gefið viðmið sem hollt væri að stefna að (BMI og kjörþyngd) með eðlilegu svigrúmi (plús/mínus 3) og svo hafa líka margir einhverja “útgáfu” af sjálfum sér í kollinum sem þeim finnst gott að miða við.

Við ættum líka að skilja skilja að “matur” sem hefur innihaldslýsingu sem hljómar eins og formúla úr herbúðum NASA en ekki mataruppskrift gæti hugsanlega haft neikvæð áhrif á líkamann og það sama gildir um hreyfingarleysið sem hefur auðvitað slæm áhrif á alla líkamsstarfsemi, liði, vöðva, hjarta, blóðrás og allt hitt.

Þú veist hvað ég meina…  – Og ég gæti haldið lengi áfram með vangaveltur á þessari braut en ætla að láta framhaldið bíða fyrir annann pistil enda höfum við ekki allann daginn í þetta 😉

Njótum dagsins og breytum rétt um leið og við elskum líkamann okkar með réttum aga og fullt af hlýju … en eitt að lokum..

Hér er Beth Ditto, glamúrus, gyllt, stútfull af sjálfstrausti, falleg…. og  já, soldið  feit! 😉 

[vimeo width=”600″ height=”500″]http://vimeo.com/5143175[/vimeo]