Nú er vor í lofti og þá er tilvalið að fara að koma sér annað slagið út úr ræktinni og skella sér út til að fá ferskt og gott loft.

Það er svo ótrúlega margt hægt að gera úti og íslensk náttúra býður upp á svo margt með allri sinni fegurð og dramatík.

Farðu út að hlaupa

Ef þú ert ekki vön að hlaupa þá er um að gera að byrja hægt, ef þú átt iPhone eða Android síma þá er fullt fullt af hlaupaöppum (apps) sem hægt er að ná í og nota til að sjá hversu langt maður hefur hlaupið og fleira. Núna er líka tilvalinn tími til að fara að byrja að æfa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið-21,1 km. Here I come!!

Farðu út að ganga

Gríptu vinkonu þína með. Við vinkonurnar förum oft í góða klukkutíma göngu í kringum bæinn – þá slær maður líka tvær flugur í einu höggi, góður félagsskapur, spjall og hreyfing!

Farðu út að ganga með barnið

Loksins, loksins, loksins er hægt að fara út að labba með krílið án þess að það sé hávaða rok þannig að kerran fýkur út um allt, slydda, snjór eða maður verður blautur inn að beini eftir rigningu. Hóaðu saman nokkrar aðrar mömmur með þér og farið saman í góðan göngutúr – þar fer einnig saman góður félagsskapur, kjaftatörn og hreyfing.

Farðu út að hjóla

Það er dásamleg hreyfing að fara út að hjóla. Ekki velja þér of auðvelda leið, veldu þér leið þar sem þú þarft að fara upp brekkur og taka vel á lærunum. Njóttu þess svo að hvíla inn á milli á jafnsléttu og mundu að hafa hjálm á höfðinu og jafnvel góða tónlist í eyrunum (en ekki of hátt stillta).

Farðu út með hundinn

Þessar elskur vita fátt skemmtilegra en að fá góða útrás og núna er um að gera að fara í góða og langa göngu eða hlaupa með hundinn-í bandi! Sumir hafa þjálfað hundana sína til að fara með í hjólatúr og hlaupa með hjólinu.

Mundu bara að njóta þess að hreyfa þig og finna þá hreyfingu sem að þér finnst skemmtilegt að stunda og þú hefur gaman af!