Föstur eru þekkt fyrirbæri og hafa verið stundaðar um allann heim frá örófi alda.

Meira að segja Jesú Kristur á að hafa stundað sínar föstur reglulega og stóðu þær þá jafnvel í heilan mánuð, enda ótrúlegt hvað líkaminn kemst upp með að vera án matar lengi.

Þessi fastaði í 40 daga í eyðimörkinni. Eins og sjá má á myndinni hefur það tekið á.

Að fasta hefur óteljandi kosti í för með sér, bæði andlega og líkamlega en þar sem hún er erfið eru margir sem veigra sér við að gera þetta.

Í dag byrjar mín fyrsta alvöru fasta en áður hef ég prófað safadaga sem stóðu þá ekki lengur en í sólarhring.

Til að einfalda mér lífið við keypti ég kassa af Biotta Wellness Week úr Heilsuhúsinu en í honum er að finna allt sem maður þarfnast til að auðvelda sér föstuna. Við erum líka tvær í þessu ég og vinkona mín sem lagði þetta til. Að hafa ‘þjáningarsystur’ með sér gerir þetta allt auðveldara og ég er svo heppin að hún hefur prófað þetta áður en núna ætla ég að skrifa um föstuna okkar og leyfa þér að fylgjast með.

Fastan gengur í stuttu máli út á að við drekkum safa og borðum hörfræ, drekkum líka mikið af vatni og jurtatei. Á sama tíma og fastað er verður maður að fara snemma í háttinn, hreyfa sig og klæða sig vel því manni verður svolítið kalt á meðan fastað er.

Ég reikna með að ná að núllstilla líkamann og losna um leið við m.a. þembu og sykurlöngun. Um leið býst ég við andlegri hreinsun og skýrari sýn á líf mitt og aðstæður en að fasta er vissulega jafn andlegt ferli og það er líkamlegt.

Líklegast er það ekki fyrir alla að fasta en ég treysti mér í þetta núna eftir góða umhugsun. Ég hef heilbrigt viðhorf til matar og mataræðis. Borða vanalega holla fæðu enhef í seinni tíð fengið mér aðeins meira af sælgæti en ég var vön hér áður. Ég er líka þessi ‘kolvetnatýpa’, á það til að vilja tríta mig aðeins á pizzu, pasta og þessháttar fæðu. Í tíu ár var ég grænmetisæta og bý enn að því en í dag leyfi ég mér stöku sinnum óunnið lamba og nautakjöt og borða mikinn fisk.

En… þá er það fastan. Búin með glas af Digestive safa, 2 tsk af hörfræjum og glas af vatni… svo heldur þetta bara áfram, einn dag í senn.

Um leið mun ég skrifa um þetta og leyfa þér að fylgjast með því hvernig mér og okkur vinkonunum gengur.